Uppruni íslenska hestsins

Íslenski hesturinn er skyldur norska lynghestinum sem er af mongólskum uppruna, en hann kom til landsins og þróaðist hér með víkingum sem fluttu þá með sér hingað fyrir meira en 1000 árum. Íslenski hesturinn ber einstaka eiginleika og er með eftirsóttari hestakynum í heiminum.

Víkingar fluttu með sér hesta frá nágrannalöndum í kringum aldamótin 1000. Þeir hafa líklegast einungis tekið með sér hið besta úrval gæðinga til landsins. Síðan þá hefur engin blöndun eða innflutningur verið við aðra hesta. Íslenski hesturinn hefur verið hreinræktaður hér á landi síðan á landnámsöld. Hesturinn er skyldastur norskum hestategundum sem eiga uppruna sinn frá Mongólíu. Það er þá helst Lynghesturinn og svo einnig Fjarðahesturinn og Hjaltlandseyjahesturinn. Íslenski hesturinn hefur svo smám saman aðlagað sig að íslensku náttúrunni, og þannig hefur skapast þetta fallega og sterkbyggða hestakyn. Í gegnum náttúruval og góða umhirðu í yfir þúsund ár hefur íslenski hesturinn þróast í eitt eftirlætis hestakyn heimsins.

Það sem einkennir íslenska hestinn helst er hversu lágur hann er en að sama skapi er hann mjög sterkbyggður og heilsuhraustur. Þeir geta orðið upp til 30 vetra gamlir. Íslenski hesturinn hefur yfirleitt gott geð, hann er mjög félagslyndur og vill vera í kringum fólk. Hann er sterkur á taugum en getur verið mjög þrjóskur á stundum, sem getur verið gott fyrir óvana hestamenn. Þá getur hesturinn tekið ákvarðanir sem oft skipta sköpum fyrir líf beggja. Allir þessir eiginleikar hestsins gerir hann einstaklega góðan fyrir íslenskt umhverfi, veðurfar og náttúru.

Einangrun íslenska hestsins hefur orðið til þess að hann hefur viðhaldið ýmsum eiginleikum sem evrópskir hestar hafa tapað í gegnum árin. Þar má helst nefna gangtegundirnar fimm sem eru sérstaklega einkennandi fyrir íslenska hestinn. Þar að auki hefur hann ótrúlegt úrval í litum sem ekki finnst í neinum öðrum hestategundum, en hann hefur yfir 40 grunnliti og 100 litaafbrigði.