Lausaganga, útigangur og rekstur hrossa

Íslenski hesturinn er mjög félagslyndur. Þá hafa aðstæður hans til að njóta frelsis og félagsskapar almennt verið taldar góðar þar sem stór hluti stofnsins hefur allt frá landnámi getað verið útivið víða á landinu. Nú á dögum eru flestir hestar hafðir á húsum um vetrartímann en þó er enn nokkuð um að hestar séu hafði á útigangi. Lög um búfjárhald, reglugerðir og samþykktir ýmis konar taka á þessu efni.

Reglugerð um velferð hrossa nr. 910/2014 er gefin út af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en tilgangur hennar er að tryggja heilbrigði og velferð hrossa með góðum aðbúnaði, meðferð og umsjá. Oft gefur Umhverfisráðuneytið út samþykktir fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaga varðandi þetta efni. Í lögum um búfjárhald nr. 38/2013 er kveðið á um í 6. grein að graðhestar eða laungraðir hestar, 10 mánaða og eldri skuli haldið í vörslu allt árið.

Nokkuð oft kemur fyrir að hross sleppa úr gerði eða fælast úr rekstri og leita í byggð. Ef einhver verður var við laus hross í byggð eða þéttbýli er haft samband við dýraeftirlitsmann viðkomandi svæðis sem þá gerir ráðstafanir til að koma hrossunum til síns heima.

Vert er að hafa í huga að eigandi hests eða hesta getur orðið ábyrgur fyrir slysum eða skemmdum sem hestur í lausagöngu verður valdur að. Oft getur þar verið um verulegar fjárhæðir að tefla. Gengið hafa dómar þar sem eigandi hefur verið dæmdur bótaskyldur vegna gáleysis við gæslu hrossa sinna. Þannig var eigandi hests dæmdur í héraði til að greiða ökumanni bifreiðar, sem ók á hross hans, skaðabætur fyrir tjónið sem ákeyrslan olli á bifreið ökumannsins. Var horft til þess að girðing í landi eiganda hrossins væri léleg og lægi víða niðri, auk þess sem hlið höfðu oft verið skilin eftir opin. Flest tryggingafélög bjóða upp á hestatryggingar og oft er hægt að hafa ábyrgðatryggingu innifalda í hestatryggingunni.