Laufskálarétt í Skagafirði 2018

Í austanverðum Skagafirði er Hjaltadalur, umgirtur háum fjöllum, og gengur hann til suðausturs inn í hálendið milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Dalurinn er nefndur eftir Hjalta Þórðarsyni landnámsmanni á Hofi. Þar í dalnum, skammt norðvestur af Hólum, er jörðin Laufskálar og í landi hennar samnefnd stóðrétt. Laufskálar nefndust fyrr Bakkakot og stóð bærinn ofar í brattlendinu. Norðan Ássins sem bærin stendur undir er Kolbeinsdalur og hefur þar um aldir, í Kolbeinsdalsafrétt, verið afréttarland fyrir hross Skagfirðinga.

Laufskálarétt í Hjaltadal í Skagafirði nýtur ávallt geysilegra vinsælda og má með sanni segja að hún sé vinsælasta stóðrétt landsins enda oft nefnd drottning stóðréttanna. Á hverju ári leiða saman hesta sína Laufskálarétt, í bókstaflegri merkingu, gestir og heimamenn og skemmta sér saman yfir eina helgi. Laufskálarétt er haldin síðustu helgina í september. Í ár bar Laufskálarétt upp á föstudaginn 28. september. Byrjaði fjörið með stórsýningu og ekta skafirskri sveiflu og gleði í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki sem hófst klukkan 20:30. Á laugardeginum hófust menn svo handa rétt fyrir hádegisbil með því að stóðið var rekið úr Kolbeinsdal til Laufskálaréttar en réttarstörf hófumst um klukkan 13:00. Um kvöldið var svo haldið hið víðfræga Laufskálaréttarball í reiðhöllinni þar sem hljómsveitin Stuðlabandið ásamt Jónsa í Svörtum fötum hélt uppi fjörinu og skemmtu réttargestir sér þar fram á nótt.

Laufskálarétt er seinni árin orðin að meiriháttar viðburði og er talið að þeir sem hana sóttu þetta árið hafi verið um þrjú þúsund. Hróður hennar hefur einnig borist víða um heim og má sjá að víða erlendis er fjallað um hana á ýmsum samfélagsmiðlum. Þannig hafa erlendir ferðamenn orðið æ meira áberandi ár hvert, ýmist til að upplifa stemninguna eða til að taka þátt í smölun. Nokkuð er um skipulagðar ferðir í Laufskálarétt bæði af ferðafyrirtækjum utan héraðs en ekki síður af fyrirtækjum í eigu heimamanna.

Laufskálarétt að ári ber upp á föstudaginn 29. september og geta allir strax farið að hlakka til.