Íslenskar bækur sem fjalla um hrossarækt

Til er fjöldinn allur af íslenskum bókum sem fjalla um hrossarækt eða hesta. Hér fyrir neðan koma ábendingar að hinum ýmsu bókum sem koma að góðum notum fyrir þann sem vill kynna sér hrossarækt betur.

Hrossaræktin – Árbók íslenskrar hrossaræktar

Hér er um að ræða bókaflokk sem kom fyrst út árið 2011 og hefur komið út í nokkur skipti eftir það (2012 og 2013). Fyrirtækið Hrossarækt ehf. stóð fyrir útgáfu bókaflokksins og er hér um að ræða mjög vandaðar bækur. Bækurnar fjalla til að mynda um kynbótasýningar og hæst dæmdu kynbótahrossin þau ár sem bækurnar koma út og í bókunum er þar að auki að finna viðtöl við ýmsa fróða hestamenn.

Merarkóngar

Þessi bók kom út árið 1992 og er fjórða hestabók Jónasar Kristjánssonar áhugamanns um hrossarækt. í bókinni er bæði að finna alla dóma sem komu út árið 1992 sem og skrá yfir helstu hrossaræktendur (merarkónga) aldarinnar í síðari hluta bókarinnar. Hér er ógrynni af upplýsingum um hesta til að mynda myndir af þeim og upplýsingar um fæðingarstað hestanna og fleira. Einnig ótrúlega miklar upplýsingar um merarkóngana sjálfa. Bókin er því tilvalin fyrir þá sem eru þyrstir í upplýsingar um hrossarækt á Íslandi.

Um kynbætur hrossa, fræðslurit Búnaðarfélags Íslands nr. 9

Hér er um að ræða bækling sem fjallar um kynbætur hrossa. Bæklingurinn kom út árið 1992.

Litir íslenska hestsins

Bókin kom út árið 2006 og er eftir Friðþjóf Þorkelsson. Þetta rit er mjög sérstakt að því leyti að það fjallar um litadýrð íslenska hestsins og hefur höfundurinn eytt mörgum árum í að ná ljósmyndum af öllum litbrigðum íslenska hestsins. En íslenski hesturinn hefur mjög sérstaka liti sem íslenskir hrossaræktendur reyna að halda í og hafa áhuga á að ná fram sérstökum litum. Bókin hjálpar hrossaræktendum við að greina liti hestsins og að skilja erfðir litanna betur. Þetta er því bók sem allir hrossaræktendur verða að eiga í sínu safni.