Hrossarækt

Hestaræktun hefur verið stunduð í mörg þúsund ár og hafa fundist merki um hnitmiðaða ræktun í 6000 ára fornleifamunum. Hestarækt er þegar tveim hrossum, meri og stóðhest er parað saman með von um folald. Merar ganga með fyl í 11 mánuði og algengt er að hleypa stóðhestum á merar á vorin svo að folöldin nái góðum styrk og geti byggt upp fituforða yfir sumarið fyrir veturinn.

Villtir hestar hafa eignast afkvæmi síðan hestar komu til en með planaðri ræktun á tömdum hestum er hægt að auka líkurnar á vel heppnaðari meðgöngu og fjölda heilbrigðra folalda. Auk þess er hægt að sjá til þess að foreldrar slasist ekki og þá er sérstaklega horft til stærri hesta, eins og t.d. dráttarklára.

Með skipulagðri rækt er hægt að hafa veruleg áhrif á útkomu afkvæma. Margar tegundir hafa ákveðin hlutverk eins og smölun, kappreiðar eða sem fjölskylduhestar. Þá kemur sér vel að vita hvaða tvo hesta á að para saman til að fá sem bestu útkomuna. Talið er að það sé hægt að rekja ættir allra hesta til mongólska smáhestsins Prewalski. Ef maður ber saman myndir af Prewalski við Shire dráttarklár er hægt að sjá mjög greinilega hversu mikil áhrif menn hafa haft með skipulagðri ræktun.

Í dag eru margir stórkostlegir stóðhestar sem eiga vægast sagt mörg afkvæmi. Þetta eru oft stóðhestar sem eru á toppnum í sínum deildum hvort sem það er í keppnum eða líkamsbyggingu. Þá er sæði þeirra að sjálfsögðu eftirsótt og er oft selt fyrir háar upphæðir. Eigendur merana leita þá til dýralæknis til þess að koma og sjá um sæðingu. Með þessu er hægt að ráða útkomu folalda og fá meira val um stóðhest og hestakyn, eða jafnvel að búa til alveg nýtt hestakyn. Hér á landi hefur verið mikið rætt um útflutninga á sæði okkar bestu stóðhesta en margar skiptar skoðanir eru á þeim málum og er það efni í allt aðra umræðu.