Hestar í umferðinni

Hestamennska er víðtækt áhugamál, jafnt á Íslandi sem og erlendis. Þó ber alltaf að hafa í huga að hestar geta fælst auðveldlega og því er mikilvægt að sýna aðgát þegar hestar eru annars vegar.

Snemma í október fældist stóð af hestum við Grímsnes og þurfti að aflífa eina meri þar sem hún festist í girðingu og slasaðist alvarlega, en stóðið fældist og braut niður girðingar eftir að flugvél flaug yfir svæðið sem þeir voru á. Talið var að um rússneska flutningavél hafi verið að ræða en hávaðinn var slíkur að hestastóðið dreifðist út um víðan völl.

Hestar geta þó fælst við minna áreiti en hávaða í flugvél. Á Íslandi er ekki óalgengt að sjá flokk hesta á vegum landsins eða við hlið vega, og bílstjórum ber skylda að taka tillit til hestanna og knapanna þar sem hestar eru álitnir farartæki á vegum landsins. Að sama skapi þurfa knapar að fylgja lögum og umferðarreglum rétt eins og bílstjórar og sýna tillit í umferðinni. Hestar mega ekki fara um göngustíga eða hjólreiðastíga, en víða eru sérstakir reiðstígar sem er að sjálfsögðu best að nýta sér. Sértu að keyra framhjá hestastóði sem er á veginum skaltu keyra mjög hægt og varlega til að fæla ekki hrossin, og fyrir alla muni: ekki flauta á dýrin! Það gæti valdið stórslysi. Fylgstu vel með knapanum sem er með hestastóðinu, oft mun hann gefa þér merki um hvort óhætt sé að fara framhjá, hvort þörf sé að hægja á bifreiðinni o.s.frv.

Séu knapar á ferð í ljósaskiptum eða þegar að dimmt er orðið, er mikilvægt að vera sýnilegur í námunda við umferðargötu. Best er að knapinn sé í vesti sem er í skærum lit og með endurskini. Einnig er hægt að fá endurskinsmerki fyrir hestinn sem er hægt að setja á tagl hestsins, hófana, reiðtygin og um háls hestsins. Með þessum einföldu lausnum er hægt að koma í veg fyrir óhöpp.

Farið varlega um vegi landsins og sýnið aðgát og tillitsemi.