Heimsmeistarakeppni íslenska hestsins

Annað hvert ár er haldin Heimsmeistarakeppni íslenska hestsins. Síðast var keppnin haldin í ágúst árið 2017 í Hollandi. Mótið er haldið í einhverju evrópulandanna en þó er það aldrei haldið á Íslandi. Líklega vegna þess að innflutningur á hestum til Íslands er bannaður vegna sóttvarna. Á næsta ári verður keppnin haldin í Berlín, Þýskalandi. Mótið er ansi vinsælt, en það sækja það um 10-15 þúsund manns í hvert sinn. Keppendur og áhorfendur koma svo frá um það bil 20 löndum og í fyrra voru um það bil 300 hestar í keppninni. Keppnin er haldin af FEIF (Alþjóðasamband Félaga Íslandshestaeiganda). Félagið var stofnað árið 1969 og voru þá aðildaríkin 6 en nú starfar félagið í 19 löndum. Árið 2000 var útbúinn gagnagrunnur fyrir íslenska hestinn og hefur félagið á skrá hjá sér um 300.000 íslenska hesta víðsvegar í heiminum.

Íslenski hesturinn er sérstakur að því leyti að bæði er hann lægri en aðrar hestategundir og svo er hann þekktur fyrir gangtegundir sínar fimm; fet, brokk, stökk, tölt og skeið. Enginn annar hestur sem sýndur er á sýningum er með allar gangtegundirnar.

Íslenska landsliðið sem keppir í heimsmeistarkeppninni samanstendur vanalega af um 20 manna hóp og eru knaparnir allt frá ungmennum upp í fullorðna. Liðið er mjög sigurstranglegt enda hefur það unnið keppnina oftar en önnur lönd. Í keppninni árið 2017 vann Ísland fern gullverðlaun. En það voru ekki einu verðlaunin sem liðið hlaut, en Ísland fékk líka bikar sem veittur er því liði sem fengið hefur flest stig. Auk þess var það Íslendingur sem fékk verðlaun fyrir lýtalausa reiðmennsku, hann Máni Hilmarsson.

Keppnin er ansi vinsæl á meðal Íslendinga. Ferðaskrifstofan Vita hefur til að mynda þegar hafið sölu á pakkaferðum til að fara til Berlínar að fylgjast með keppninni á næsta ári en mörg hundruð Íslendingar fóru til Hollands í fyrra til að horfa á keppnina.